Innskráning

Raforkukerfið

Raforka er gríðarlega mikilvæg í nútíma samfélagi. Án hennar myndi mest allt atvinnulíf stöðvast og heimilishald yrði með allt öðru sniði en við þekkjum. Til þess að koma rafmagni til notenda þarf raforkukerfi. Grunnurinn að raforkukerfi Íslendinga var lagður þegar fyrstu virkjanirnar voru gangsettar. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Núna liggja raflínur og strengir um allt land og til allra notenda.

Landsnet á og rekur flutningskerfið sem flytur raforku á milli landshluta. Fyrirtækið afhendir dreifiveitum raforku til dreifingar á dreifiveitusvæðunum. Landsnet afhendir einnig raforku beint til stóriðju. Hæsta spenna á flutningslínum Landsnets er 220 kV en stærsti hluti kerfisins er rekinn á 132 kV.

Dreifiveiturnar skila raforku til allra almennra notenda í landinu. Afhendingapunktarnir frá Landsneti eru í tengivirkjum víðs vegar um landið og þaðan sjá dreifiveiturnar um flutninginn. Hæsta spenna hjá dreifiveitunum er 132 kV sem er síðan spennt niður í ýmsum þrepum í 400V sem er sú spenna sem kemur inn til allra heimila og flestra fyrirtækja í landinu.